Ráðgjöf og aðstoð

Hitt Húsið er hér til að styðja þig!  Hvort sem þig vantar hjálp við að koma einhverri snilldarhugmynd í framkvæmd eða ert ringluð og veist ekkert hvað þú átt að gera í lífinu, þá getur starfsfólk Hins Hússins reynt að aðstoða.

Aðstoð við að koma hugmynd í framkvæmd

,,Vertu minna forvitin(n) um fólk og meira forvitin(n) um hugmyndir,“ sagði eðlisfræðingurinn Marie Curie.  Starfsfólk Hins Hússins er einstaklega forvitið um hvers kyns hugmyndir sem ungt fólk kann að hafa og er boðið og búið að reyna að aðstoða við að hrinda þeim í framkvæmd.  Hitt Húsið veitir aðstöðu, aðstoð við styrkjaumsóknir og almennt pepp.  Hafðu samband ef þú ert með hugmynd, hvort sem hún er stór eða smá.

Hreiðar Már Árnason

Deildarstjóri Upplýsingadeildar

S: 411-5500

hitthusid@hitthusid.is

Ráðgjöf

Starfsfólk Hins Hússins er til staðar fyrir þig ef eitthvað bjátar á.  Ráðgjafar Hins Hússins upplýsa um félagsleg úrræði, veita almenna ráðgjöf, og stuðning fyrir ungt fólk.  Ráðgjafar Hins Hússins eru einnig í góðu samstarfi við fagaðila og stofnanir Reykjavíkurborgar og vinna hvort heldur sem er með einstaklingum eða hópum.

Bogi Hallgrímsson

Ráðgjafi

S: 411-5522

bogi@hitthusid.is

Tótalráðgjöf

Á árum áður var hægt að senda inn nafnlausar spurningar í blöð fyrir ungt fólk, eins og Æskuna og Smell.  Með tilkomu hins háæruverða internets hurfu þessi blöð af markaðnum og skorti ungt fólk þá vettvang þar sem það gat sent inn nafnlausar spurningar um allt á milli himins og jarðar.

Ráðgjafateymi Tótalráðgjafar er skipuð fagfólki sem svarar hvaða spurningu sem er, -um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.  Svör eru send með tölvupósti til sendanda og birt á Áttavitanum ef að spyrjandi gaf leyfi fyrir því.