Skapaðu ævintýri!

Dagur í lífi Heiðu Vigdísar Sigfúsdóttur, sem dvaldi í Mexíkó á vegum Alþjóðegra ungmennaskipta

Ég vaknaði fyrr en venjulega um morguninn til þess að ná því að fara í sturtu á undan sambýlisfólki mínu. Þegar ég skrúfaði frá krananum leið mér eins og ég væri orðin fyrirliði sjósundshópsins í Nauthólsvík því íbúarnir við San Antono 39 gleymdu alltaf að endurnýja gaskútinn. Til þess þurftu þeir að leggja við hlustir á morgnanna og bíða eftir að hávært garg heyrðist: „GAS! GAS! GAS!“. Þá þurfti einhver að hlaupa út á götu og veifa mönnum sem keyrðu um á risavöxnu gasbílunum. Þeir komu svo inn í íbúðina og skiptu um kút á svipstundu. Íbúarnir við San Antono 39 voru hins vegar svo latir og afslappaðir að þeir létu sig oftast hafa kalda vatnið.
Eftir sturtuna tók ég lest í vinnuna. Í lestinni var örugglega fleira fólk en í miðbæ Reykjavíkur í gleðigöngunni. Þröngt mega sáttir sitja eða réttara sagt standa í þessu tilfelli, sem kom sér mjög vel þegar lestin snarhamlaði og ég haggaðist ekki. Ég fór út úr lestinni hjá „Tepito“ og mætti um leið Erik, yfirmanni mínum, sem bjó í hinum enda bæjarins. Hann bauð mér upp á nýkreistan appelsínusafa á safabás beint fyrir ofan lestarstöðina.

Knúsað í Hvergilandi
Fyrsta verkefni dagsins var að sækja stráka sem voru á aldrinum 13-18 ára og fara með þeim á dagheimilið þar sem við unnum. Þeir áttu heima í almenningsgarðinum Las Aguilas sem var rétt hjá lestarstöðinni. Að koma í Las Aguilas var svolítið eins og að fljúga inn í Hvergiland, þar sem tíminn líður ekki og týndu strákarnir vilja ekki verða fullorðnir. En í mannheimum líður tíminn víst og þeir strákar sem voru tilbúnir komu á dagheimilið með mér og Erik.
Á dagheimilinu tók fyrsta og jafnframt erfiðasta verkefni dagsins við, kyssa og knúsa allt samstarfsfólk mitt. Mig grunar að í Mexíkó sé ellefta boðorðið: „Þér skuluð heilsa og kveðja alla með eins mikilli hlýju og mögulegt er“. Þess vegna heilsuðu mér allir svona „Ahhh góðan daginn elsku besta Heiða mín, hvernig hefurðu það í dag litla snúlla? Mmm.. kiss kiss“. Ég svaraði alltaf: „bara fínt“ því ég hafði óvart vanist boðorði Íslendinga: „Þér skuluð mögulega heilsa með hikandi brosi, en líta svo fljótt undan svo það sé mátulega hægt að taka mark á þér.”

1382202_10151657376751074_1739560637_nKomst yfir boltahræðsluna
Næst var morgunmatur borinn á borð. Kokkurinn á dagheimilinu, Mau, skammtaði mat fyrir fimm manns á diskinn minn. Með hverjum deginum þjálfaðist ég í matarátinu, bæði logaði munnurinn minna og minna út af chillíinu og ég gat borðað meira og meira. Á dagheimilinu giltu nefnilega reglur fyrir strákana sem ég þurfti að fylgja og jafnframt sýna gott fordæmi: Handþvo þvottinn sinn á morgnana, bannað að blóta, klára matinn af disknum , vaska upp eftir sig og taka þátt í dagskránni.
Eftir matinn fórum við á leikvöll sem var rétt hjá og spiluðum fyrst fótbolta og svo fótbolta. Ég fékk spark í sköflunginn um það bil fimm sinnum og fékk boltann í andlitið svona tvisvar. Sem betur fer er ég til frásagnar eftir þann leik þar sem ég vann bug á hræðslu minni við bolta. Eftirmiðdagurinn fór svo í skapandi starf þar sem við máluðum myndir á steina og yfirmenn mínir töluðu um lífið, neyslu og framtíðina við strákanna.
Um kvöldið fórum við sambýlingarnir og mexíkönsku vinir okkar á uppáhalds salsastaðinn okkar; „Mil amores, mezcalería“. Þar dönsuðum við fram eftir kvöldi, svona eins og maður gerir á miðvikudögum.

Ævintýri á vegum AUS
Þessi tiltekni miðvikudagur átti sér stað þegar ég dvaldi sem sjálfboðaliði á vegum AUS í Mexíkóborg. Ferðalagið þangað var eins og að sogast inn í ævintýraheim á svipaðan hátt og þegar Harry Potter fór í Hogwarts, -skóla galdra og seiða. Ævintýrin mín urðu dagar eins og þessi miðvikudagur þar sem ég lærði nýja lífspeki, siði og venjur á framandi tungumáli. Sumir kaflar urðu frábærir en aðrir slæmir, -án þeirra væri það heldur ekki ævintýri.
Ein gefandi og skemmtileg leið til þess er að fara út á vegum AUS, Alþjóðlegra ungmennaskipta. Það er aldrei of seint að skapa sitt ævintýri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *