Saga Hins Hússins

[vc_row][vc_column][vc_column_text]

Saga Hins Hússins

Hitt Húsið var opnað árið 1991 eftir að hugmyndin að tómstundaaðstöðu fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára hafði legið á borðum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur um nokkurt skeið.

Í fyrstu var Hitt Húsið staðsett í gamla skemmtistaðnum Þórskaffi í Brautarholti og var að mestu leyti rekið sem dansstaður fyrir ungt fólk. Fljótlega kom þó í ljós að ungt fólk vildi aðstöðu fyrir innihaldsríkari og uppbyggilegri starfsemi á sviði lista, menningar og fræðslu. Frá þeim tíma hefur Hitt Húsið smám saman tekið á sig þá mynd að vera menningar- og upplýsingarmiðstöð þar sem ungu fólki er veitt ýmis aðstoð og ráðgjöf, t.d. ráðgjöf til að koma hugmyndum sínum til framkvæmdar.

Markmið Hins Hússins

  • Að veita ungu fólki aðstöðu og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • Að endurspegla menningu ungs fólks.
  • Að veita upplýsingar og leiðbeina ungu fólki, í samstarfi við aðra fagaðila og samtök.
  • Að vera miðstöð ungs fólks í leit að sumarstarfi.
  • Að vera vettvangur fyrir félagsleg úrræði og ráðgjöf fyrir ungt fólk.

Um Pósthússtræti 3-5

Hitt Húsið flutti starfsemi sína úr Geysishúsinu yfir í Pósthússtræti 3-5 árið 2002.  Ýmis starfsemi hafði áður verið í húsinu, svo sem lögreglustöð, pósthús, fangelsi, barnaskóli og fleira en textinn hér að neðan er tekinn úr skýrslu nr. 132 um húsakönnun eftir Helgu Maureen Gylfadóttur og Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur.

Pósthússtræti 3

gamalt hitt húsÞetta hús er byggt sem skólahús árið 1882. Á lóðinni stóðu áður hús Flensborgarverslunar sem sjá má að uppdrætti frá 1801. Framkvæmdarstjóri byggingarinnar var Bald, en hann hafði nýverið lokið við byggingu Alþingishússins. Lyders, sem einnig hafði unnið við Alþingishúsið, var ábyrgur fyrir steinsmíðinni. Árið 1885 lét bæjarstjórnin byggja leikfimihús úr timbri við húsið. Það var með járnþaki og málað með olíulit að utan og innan. Árið 1898 flutti barnaskólinn í nýtt hús suður við Tjörnina og var húsið þá gert að pósthúsi. Árið 1914 er byggt nýtt pósthús á suðurhluta lóðarinnar og er fjallað um það á sér skjali, Pósthússtræti 5. Árið 1921 var sett loftskeytamastur á þak hússins. Árið 1922 var þakinu breytt og sett á það brotið þak, mansard þak, í stað valmaþaksins. Landsíminn flutti úr húsinu árið 1931 og var það þá gert að lögreglustöð. Póstur og sími tók aftur við húsinu eftir að lögreglustöðin flutti á Hverfisgötuna.

Pósthússtræti 5

Hús þetta er byggt sem pósthús árið 1914 og var fyrst virt 1915. Samkvæmt þeirri virðingu var lyfta í húsinu frá upphafi. Árið 1929 var reistur bílskúr sem tilheyrir húsinu. Hann er úr steinsteypu með járnþaki. Einnig er geymsluskúr úr bindingi virtur á sama tíma. Samkvæmt þeim virðingum sem hér um ræðir er húsið óbreytt frá byggingu þess.[/vc_column_text][dt_before_after image_1=“14724″ image_2=“795″][vc_column_text]

Starfsemin í Pósthússtræti 3-5

Hugmynd að húsi

Árið 1872 var Barnaskóli Reykjavíkur til húsa í gömlu timburhúsi við Hafnarstræti, svokölluðu Flensborgarhúsi, sem tveir kaupmenn höfðu á sínum tíma gefið bænum. Um 90 börn voru í skólanum og sátu þau á baklausum bekkjum og rýndu í skólabækurnar við kertaljós.

Árið 1880 fylltist meirihluti bæjarstjórnar miklum stórhug og ákvað að byggja nýtt skólahús á vegum bæjarins. Aldrei áður hafði bæjarfélagið ráðist í sambærilegar stórframkvæmdir.  Boðað var til samkeppni um uppdrætti að nýjum barnaskóla, kosin nefnd til að gera áætlun um fyrirkomulag hans og tekið stórt lán úr landsjóði. Bæjarblaðið Þjóðólfur sagði þetta vera hið þarfasta fyrirtæki þar sem gamla skólahúsið rúmaði ekki nema fjórðung af börnum bæjarins.

Timbur vs. steinn

Brátt logaði allt í illdeilum út af barnaskólabyggingunni. Menn gátu ekki orðið á eitt sáttir um það hvort byggja ætti úr steini eða timbri og margir voru algjörlega andvígir því að ráðast í slíkt glæfrafyrirtæki, vildu aðeins lappa upp á gamla skólahúsið. Hópur bæjarbúa skrifaði undir bréf þar sem skorað var á bæjarstjórnina að fresta öllum framkvæmdum því að bærinn risi ekki undir kostnaðinum og þar að auki létu þeir í ljós ósk um að ekki væri byggt hús fyrr en bærinn væri orðinn fær um að byggja það úr steini.

Hinn 15. desember 1881 var málið tekið til endanlegrar atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn og var hiti í umræðum. Var m.a. lesið upp bréf frá þremur læknum bæjarins um óheilnæmi gamla skólans. Að lokum var samþykkt að reisa nýtt skólahús úr steini svo fremi sem kostnaðurinn færi ekki fram úr 25 þúsund krónum.

Árið eftir var hafin bygging skólahússins og var það tvílyft steinhús úr höggnu grágrýti eftir teikningu Fredrik A. Bald sem þá hafði nýlokið við smíði Alþingishússins.

Barnaskólahúsið kom þegar að góðum notum. Þar var haldin fyrsta iðnsýningin á Íslandi árið 1883, nefnd gripasýning, og ýmiss konar fundarhöld fóru þar fram.

Nýr skóli byggður

Eftir 1890 fjölgaði börnum mjög ört í Reykjavík og brátt gat hinn nýbyggði skóli ekki sinnt öllum sem þar vildu komast inn. Árið 1897 var ákveðið að hefja byggingu nýs barnaskóla, Miðbæjarskólans, þó að skólahúsið í Pósthússtræti væri ekki nema 14 ára gamalt. Gamli skólinn var þá seldur Landstjórninni fyrir pósthús.

Skóli verður pósthús

Þegar póstur barst frá útlöndum eða utan af landi þyrptust allir, sem von áttu á bréfi eða böggli og margir af forvitni, heim til póstmeistarans í Pósthússtræti (þar sem Hótel Borg var síðar). Þar var lesið upphátt utan á bréfin. Það var ekki fyrr en um 1895 að raddir fóru að heyrast sem gagnrýndu þennan hátt mála, benti Þjóðólfur m.a. á að þarna færi fram óþolandi hnýsni í einkamál manna.

Árið 1897 var gamla barnaskólahúsið á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis keypt og því breytt í pósthús. Var þá hægt að skipta starfseminni, t.d. hafa bréfa-, böggla- og póstávísanaafgreiðslu sér auk þess sem sett voru upp bréfahólf (box). Varð póstþjónustan þar með stolt bæjarbúa þar sem hún var talin nýtískulegri en jafnvel í Kaupmannahöfn.

Pósturinn var í húsinu til ársins 1915 þegar nýtt pósthús var reist á suðurhluta lóðarinnar.

Landssímastöð

Gamla barnaskólanum var breytt í landssímastöð árið 1921 og var þá sett stórt loftskeytamastur á þakið. Árið 1922 var hæð bætt ofan á húsið og 1926 var þaki hússins breytt og brotið þak sett í stað valmaþaksins. Teikningar að breytingunni gerði Guðjón Samúelsson húsameistari. Helgi Helgason, snikkari og tónskáld, vann við að leggja þakhellur á húsið. Dag einn verður honum á að missa eina helluna til jarðar svo hún brotnaði. Fékk þá tónskáldið hugljómun og samdi vel þekkt lag við ljóð Hannesar Hafsteins, Skarphéðinn í brennunni, sem hefst svo: „Buldi við brestur“. Krítaði hann frumtóna lagsins á nærtæka þakhellu.

Lögreglustöð og útlendingaeftirlit

Lögreglustöðin hafði lengst af verið í sambandi við heimili lögreglustjórans. Það var því mikil hamingja innan lögreglunnar árið 1935 þegar ákveðið var að hún fengi til umráða gömlu símstöðina við Pósthússtræti. Húsið var sérstaklega útbúið fyrir lögregluna með skrifstofum, varðstöð og aðstöðu fyrir nýstofnaða rannsóknarlögreglu. Þá bættist í húsið útlendingaeftirlitið, stofnað 1936.

Lengi framan af voru gistivinir lögreglunnar vistaðir í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, jafnt ölvaðir menn sem og þeir er geyma varð vegna rannsóknar mála. Þessa aðstöðu missti lögreglan um svipað leyti og Ísland var hernumið árið 1940. Þótti mönnum þá illt í efni og þó verra fyrir það að hernáminu fylgdi aukinn drykkjuskapur og að auki talsverð áhætta á missætti með hermönnum og drukknum Íslendingum.

Hvað á að gera við drukkna menn?

Í ágúst 1940 sendir Agnar Kofoed-Hansen lögreglustjóri dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem segir m.a.:

„Vegna þessa sérstaka ástands sem nú er ríkjandi hér, hefi ég orðið að taka upp strangari reglur en áður um fjarlægingu ölvaðra manna frá almannafæri …Var þetta að mínum dómi nauðsynlegt, þar sem heimflutningur ölvaðra manna hefir ekki reynst nægileg öryggisráðstöfun. Hefir það sýnt sig, að margir þeirra áberandi ölvaðra manna, sem lögreglan hefir flutt heim undanfarið, hafa að vörmu spori aftur verið komnir á almannafæri.“

Flæðir inn í klefa

Litið var á smíði fangaklefanna í kjallara lögreglustöðvarinnar sem bráðabirgðarúrræði. Bráðabirgðarúrræðið var þó notað í rúm tuttugu ár. Fyrst voru klefarnir fjórir talsins en urðu að lokum ellefu.

Þessir klefar í kjallaranum voru örsmáir, mjór legubálkur og enn þrengra rými fram með honum. Lofthæð var þarna takmörkuð og hreinlætisaðstaðan frumstæð. Þarna var ekki unnt að hafa vatnssalerni, þar sem kjallarinn lá það lágt að hætta var á að allt kæmi öfuga leið upp úr slíkum búnaði. Þess í stað var höfð blikkfata í horni hvers klefa. Reyndar var svo með Kjallarann, eins og fleiri kjallara í miðbæjarkvosinni, að iðulega flæddi inn í hann, þegar sjávarföll stóðu sem hæst. Fékk lögreglan því sendar flóðatöflur árlega, þar sem merkt var við þá daga þegar hætta var á að sjávarfalla gætti í húsakynnunum.

„Hotel de la Police“

Lögreglan gekk vasklega fram við að hreinsa bæinn af drukknum mönnum og var Kjallarinn iðulega fullur. Þrátt fyrir hræðilegan aðbúnað áttu fastagestir úr strætinu til að biðja um gistingu á „Hotel de la Police“, eins og Jón Helgason kallar Kjallarann í kvæði um íslenska drykkjusiði. Þá fannst Agnari Kofoed-Hansen, „höfundi Kjallarans“, hann alls ekki svo slæmur ef marka má orð hans í Lögreglublaðinu árið 1969:

„Átökin (við hernámsliðið) gátu alltaf leitt til víga og við bar að þau gerðu það. Við hreinsuðum því bæinn af fylliröftum og létum útbúa kjallarann sem fangageymslu. Þá sem minna voru ölvaðir gátum við geymt uppi í réttarsalnum undir gæslu þangað til af þeim rann. Þá erfiðari geymdum við í kjallaranum. Klefarnir voru hreinir, og hlýir, – stundum að vísu of hlýir. Loftræstingin var ekki nógu góð, en þó voru þetta alls ekki hættulegar geymslur.“

Óbærileg vist

Flestir munu þó hafa verið á einu máli um að ástandið væri óviðunandi og á sjötta áratugnum voru þær raddir orðnar háværar sem deildu hart á lögregluna. Voru fangaverðir iðulega sakaðir um barsmíðar og hrottaskap auk þess sem menn töpuðu lífi sínu í Kjallaranum, ýmist viljandi eða óviljandi. Að minnsta kosti tveir menn hengdu sig í fangaklefunum og verður að teljast með ólíkindum að þeim skuli hafa tekist það. Annar notaði til þess nærbolinn sinn en hinum tókst að rífa í sundur teppið. Þeir festu þetta síðan í loftræstigrind á hurð klefans, en hún hefur verið u.þ.b. í axlarhæð, og hafa síðan með einhverju móti dregið undir sig lappirnar.

Í Þjóðviljanum 22. janúar 1958 skrifar Alfreð Gíslason læknir eftirfarandi grein um fangageymslu lögreglunnar:

„Undir lögreglustöðinni í Reykjavík er einn aumasti kjallarinn í öllum bænum og er þá langt til jafnað. Hann er grafinn djúpt í jörðu niður, og þar er lágt undir loft, dimmt og daunillt. Þessi kjallari er hólfaður sundur í þrönga klefa og harður trébálkur í hverjum. Helst minnir jarðhýsi þetta á hinar illræmdu dýflissur miðaldanna. Þarna eru menn hafðir í geymslu, ekki ræningjar og illvirkjar, heldur sjúklingar og það einmitt þeir, sem síst allra geta borið hönd fyrir höfuð sér. Hér geymir höfuðborgin vitskerta menn um stundarsakir. Í kjallaranum dvelst fólk, haldið brjálsemi ýmissa tegunda, þótt mest beri þar á ölóðum mönnum.

Niður í þessa óheilnæmu vistarveru eru dregnir sljóir og sinnulausir geðveiklingar, sem lögreglan hirðir upp af götunni, æstir og ofsafengnir brjálæðingar og loks rænulausir sjúklingar, sem ýmist réttilega eða ranglega eru taldir drukknir. Þegar niður er komið, er þeim dengt á trébálkinn í þröngum klefunum og síðan er aflæst. Þarna niðri má heyra þetta ógæfusama  fólk  arga og bölsótast eða kveina og kvarta, en aðrir sofa þungum svefni, stundum í spýju sinni eða öðru er frá þeim fer.

Þegar ölóðir menn rakna úr rotinu, óstyrkir og skjálfandi, þá er þeim hleypt út á götuna og gaddinn. En fyrir kemur, að einn og einn þessara ógæfumanna vaknar aldrei af kjallarasvefninum. Hann finnst þá örendur á rúmbálkinum eða steingólfinu og er fluttur beina leið á krufningarborðið.

Í rúm 20 ár hef ég öðru hverju heimsótt sjúklinga á þessum ömurlega stað, og mér er það alltaf undrunarefni, að annað eins hæli skuli vera til í hinu siðmenntaða íslenska þjóðfélagi. Lengi gerði ég ráð fyrir, að hætt yrði þá og þegar að geyma þarna fólk og skárri húsakynni fengin. En þetta reyndist tálvon. Lögreglukjallarinn er enn í notkun og lítið útlit fyrir að breytt verði til í náinni framtíð.

Þessi kjallari ber því miður vott um ruddaskap þess þjóðfélags, sem holar vesalingum sínum þar niður. Hverjum þeim, sem kynnist þessari dýflissu, hlýtur að renna til rifja mannúðarleysið.“

Síðustu fangarnir

Í desember árið 1961 voru nýjar fangageymslur í Síðumúla teknar í notkun. Þar með voru teknar upp nýjar reglur varðandi fangageymslur í Pósthússtræti. „Um Kjallarann gera reglurnar ráð fyrir að önnur álma hans verði lögð niður. Hins vegar verði í það minnsta fimm klefum haldið þar í nothæfu ástandi en þó aðeins til notkunar þegar nauðsynlegt er vegna þess að fangageymslan í Síðumúla er fullsetin. Sérstaklega er varað við því að heimila þeim gistingu í Kjallaranum sem kunna að vera til vandræða.“ Fangageymslan í lögreglustöðinni við Hverfisgötu var svo tekin í notkun 26. febrúar 1970.

Málfríður Einarsdóttir

Málfríður Einarsdóttir (1899-1983) bjó lengi á efstu hæð pósthússins í Austurstræti, þar sem maður hennar Guðjón Eiríksson var húsvörður. Fyrsta bók Málfríðar, Samastaður í tilverunni, kom út þegar hún var á áttræðisaldri og vakti mikla athygli. Það vakti furðu að svo snjall rithöfundur skyldi brjótast fram á sjónarsviðið svo seint á æviskeiði sínu, en Málfríður hafði þó lagt stund á ritstörf um árabil áður en hennar fyrsta bók fékkst útgefin. Auk sjálfsævisögulegra bóka hennar og skáldverka birtust kvæði og greinar eftir hana í tímaritum og dagblöðum og var hún einnig mikilvirkur þýðandi.

Málfríður þjáðist af berklum um áratuga skeið og var lengi rúmföst sökum vanheilsu. Hún var að sögn sískrifandi, en eftirfarandi ritaði skáldið, og útgefandi Málfríðar, Sigfús Daðason í minnargrein um hana:

„Málfríður Einarsdóttir var rithöfundur fram í fingurgóma, haldin þeirri ástríði rithöfundar sem nálgast grafómaníu. Hún skrifaði á hverjum degi ef nokkur tök voru á: nulla dies sine linea, og ég hygg að síðustu línurnar hafi hún skrifað föstudaginn 21. október, en 22. október veiktist hún og var flutt á spítala. Hún dó síðdegis 25. október.“

Mekkano almannatengslafyrirtæki

Árið 2000 sameinuðust netlausnafyrirtækið Gæðamiðlun og almannatengslafyrirtækið GSP í eitt fyrirtæki sem bar nafnið Mekkano. Fyrirtækið var ríkulega búið í takt við árferðið, með góða aðstöðu og marga starfsmenn.  Ári seinna sprakk svo interbólan og netlausnarhluti Mekkanos dró fyrirtækið niður í svaðið.  Hluti starfsmanna fékk starf hjá EJS og XYZ auglýsingastofu, en það dugði ekki til; Mekkano fór á hausinn.
Í kjölfarið flutti Hitt húsið úr Geysishúsinu inn í fallega rauða húsið við Pósthússtræti.[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row]