Hitt Húsið – Miðstöð Ungs fólks
VELKOMIN Í HITT HÚSIÐ!
Hitt Húsið er miðstöð ungs fólks þar sem ungmenni geta nýtt aðstöðuna til að syngja, dansa, dreyma, skapa, læra, spila, funda, -nánast hvað sem þeim dettur í hug!
Komdu og kynntu hugmyndina þína eða kíktu bara í kaffi og sjáðu hvað er í gangi. Hitt Húsið er rekið af Reykjarvíkurborg og er opið öllu ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.
Saga Hins Hússins
Hitt Húsið var stofnað af Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar 15. nóvember 1991 fyrir ungt fólk á aldrinum 16- 25 ára.
Í fyrstu var Hitt Húsið staðsett í gamla skemmtistaðnum Þórskaffi í Brautarholti. Þar hófst fjölbreytt starfsemi fyrir ungt fólk á sviði menningar, atvinnumála og skemmtunar. Strax á fyrsta starfsárinu hófst Unglist – listahátíð ungs fólks sem og opin hús fyrir fötluð ungmenni. Í húsnæðinu var ennfremur æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir og þar voru haldin böll á vegum framhaldsskólanna.
Í ágúst 1995 var starfsemin flutt í gamla Geysishúsið við Aðalstræti. Frá þeim tíma hefur Hitt Húsið þróast enn frekar í menningar- og upplýsingamiðstöð ungs fólks auk þess að starfrækja ýmis úrræði á sviði ráðgjafar, fræðslu og atvinnumála sem og frístundastarf fatlaðra ungmenna. Í mars 2002 var Hitt Húsið svo enn fært um set, í þetta sinn að Pósthússtræti 3- 5.
Haustið 2015 flutti hluti frístundastarfs fatlaðra upp á Rafstöðvarveg 9, en í janúar 2019 flutti starfsemi Hins Hússins alfarið upp á Rafstöðvarveg 7-9.