Listir og menning

Hitt Húsið er aðsetur menningar ungs fólks. Að skapa er að finna upp, gera tilraunir, vaxa, brjóta reglur, gera mistök og skemmta sér. En þessi skilgreining á vel við það menningarstarf sem fram fer í Hinu Húsinu, menningar-og upplýsingarmiðstöð ungs fólks.

GÖTULEIKHÚS HINS HÚSSINS

Götuleikhúsið er orðið vel þekkt á meðal almennings enda hefur leikhúsið verið starfrækt yfir sumartímann frá árinu 1994. Síðan þá hefur leikhúsið fóstrað stóran hóp ungs fólks sem mörg hver starfa í dag sem þekktir listamenn á ýmsum sviðum.

Á hverju sumri býðst ungmennum á aldrinum 17 til 25 ára að sækja um að starfa með Götuleikhúsinu. Árlega er leikstjóri fenginn til liðs við Götuleikhúsið ásamt búningahönnuði sem hannar búninga og leikmyndir í samvinnu við hópinn. Meðlimir Götuleikhússins fá því þjálfun í öllu því helsta sem tengist starfi götuleikhúss þar sem að leikararnir koma að öllum undirbúningi sem viðkemur sýningunum.

Sótt er um á vef Reykjavíkurborgar og allir umsækjendur eru kallaðir í leikprufur.   Götuleikhúsið er starfrækt í 8 vikur yfir sumartímann. Athugið að umsækjendur sem sækja um starf við Götuleikhúsið þurfa að hafa lögheimili í Reykjavík.

Yfir vetrartímann vinna fyrrum Götuleikhúsmeðlimir oft sjálfstætt og taka að sér verkefni fyrir ýmsa aðila.

Nánari upplýsingar varðandi Götuleikhús Hins Hússins má fá hjá Menningardeild Hins Hússins í síma 6955102

LISTHÓPAR HINS HÚSSINS

Ungu fólki gefst kostur á að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi verkefnum og valdir hópar eða einstaklingar fá síðan tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum í átta vikur yfir sumartímann.  Þessi verkefni eru afar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg og eru sýnileg víða í Reykjavíkurborg. Í gegnum árin hafa margir af okkar fremstu listamönnum innan allra listgreina tekið sín fyrstu skref í Listhópum Hins Hússins.

Hvernig sæki ég um?

Ungu fólki á aldrinum 17-25 ára með lögheimili í Reykjavík gefst kostur á að sækja um starf við Listhópa Hins Hússins. Útprentuðum umsóknum skal skilað í Hitt Húsið, Rafstöðvarveg 7, 110 Reykjavík, merktum “Listhópar Hins hússins,” en auk þess þarf að sækja um verkefnið á vef Reykjavíkurborgar og þarf útprentuð staðfesting frá þeim að fylgja umsókninni.

Athugið að eingöngu er um laun til einstaklinga að ræða en ekki önnur fjármögnun á verkefninu.

Störfin eru einungis fyrir ungmenni með lögheimili í Reykjavík.

Skila þarf inn umsókn þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram um verkefnið:

  • Greinargóð lýsing á verkefninu, umfangi þess og markmiðum
  • Tíma- og verkáætlun verkefnisins
  • Fjárhagsáætlun
  • Upplýsingar um aðstandendur verkefnisins og tilgreina einn aðila sem tengilið verkefnisins

Afgreiðsla umsókna

Fjögurra manna nefnd skipuð forstöðumanni Hins Hússins, deildarstjóra menningarmála Hins Hússins, fulltrúa frá LHÍ og einum utankomandi aðila tengdum menningu og listum fer yfir umsóknirnar og velur ákjósanleg verkefni.

Þættir sem nefndin hefur m.a. til hliðsjónar við verkefnaval:

  • Markmið,verkáætlun og framkvæmd
  • Frumleika hugmyndarinnar
  • Samfélagsleg vídd verkefnisins
  • Reynsla umsækjenda
  • Fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins sé tryggður
  • Fjölbreytni í verkefnavali/ vægi á milli listgreina-málaflokka
  • Kynjahlutfall umsækjenda
  • Gæði umsóknarinnar

ATH. Gerð er sú krafa að þeir sem að fá úthlutað taki þátt í sameiginlegri dagskrá Listhópa Hins Hússins á þremur Föstudagsfiðrildum og Uppskeruhátíð sem fara fram í miðborg Reykjavíkur á tímabilinu og á 17 júní.

Nánari upplýsingar varðandi Listhópa Hins Hússins má fá hjá Menningardeild Hins Hússins í síma 6955102

MÚSÍKTILRAUNIR

Músíktilraunirnar hafa allt frá árinu 1982 verið einn aðalvettvangurinn fyrir ungar íslenskar hljómsveitir og tónlistarfólk á aldrinum 13-25 ára til að koma tónlist sinni á framfæri.  Músíktilraunir er tónlistarhátíð sem stendur yfir í 1 viku í lok mars og byrjun apríl ár hvert. Tónlistarfólk getur sótt um þátttöku með því að senda inn umsókn á netinu og greiða þátttökugjald. Undankvöld fara svo fram (4-5 kvöld) þar sem 40-50 hljómsveitir keppa að því takmarki að komast áfram á úrslitakvöldið. Um 10-12 hljómsveitir fara venjulega í úrslit; fyrstu 3 sveitirnar hljóta síðan glæsileg verðlaun af ýmsum toga. Einnig eru efnilegustu hljóðfæraleikararnir valdir og vinsælasta hljómsveitin meðal áhorfenda/hlustenda kosin með símakosningu.

Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt, auk þess hefur sjónvarpið tekið það upp og sýnt síðar. Fyrir utan þau frábæru fyrirtæki sem stutt hafa við bakið við okkur í sambandi við verðlaun sigursveitanna, þá hafa Músíktilraunir í gegnum árin átt góða bakhjarla. Þar má helsta telja Icelandair, FÍH, Harpa og Rás 2. Þátttaka í Músíktilraunum er frábær upplifun og ómetanleg reynsla fyrir upprennandi tónlistarfólk.  

Hitakassinn

Tónlistarborgin Reykjavík í samstarfi við Hitt Húsið, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Hörpu tónlistarhús bjóða fulltrúum atriðanna sem komast áfram í úrslit á Músíktilraunum 2021 til þátttöku í skemmtilegu og hagnýtu námskeiði um tónlistariðnaðinn sem fram fer eftir keppnina.

Nánari upplýsingar á : www.musiktilraunir.is og hjá Menningardeild Hins Hússins í síma 6955102

STAGE EUROPE NETWORK

Hitt Húsið er einn af stofnfélögum Stage Europe Network /www.stagenetwork.eu sem var stofnað í Hollandi árið 2009.  Stage Europe Network er tengslanet 7 Evrópuþjóða sem vinna á tónlistarsviði með og fyrir ungt fólk. Eftirfarandi aðilar eru í Stage Europe Network:

  • Holland- POPUNIE -www.popunie.nl,
  • Frakkland-AIX’QUI? -www.aixqui.fr,
  • Noregur-OSTAFJELLSKE KOMPETANSESENTER FOR RYTMISK MUSIKK -www.ostafjellske.no,
  • Þýskaland- MUSIKSZENE BREMENwww.musikszene-bremen.de,
  • Pólland- THE BALTIC SEA CULTURAL CENTRE/www.nck.org.pl,
  • Ísland-HITT HÚSIÐ MIÐSTÖÐ UNGS FÓLKSwww.hitthusid.is.  
  • Eistland NOORTEBÄND -www.noorteband.ee/et/

Stage Europe Network hefur að markmiði að halda úti sterku tengslaneti og starfar á tveimur sviðum.  Annars vegar  á sviði samstarfsfélaganna (félaga, samtaka ,stofnana ) með innbyrðis skiptum á fagfólki og þróun á langtímaverkefnum sem nýtast ungum hljómsveitum.  Hins vegar að bjóða ungum hljómveitum/tónlistafólki að öðlast reynslu á samevrópskum vettvangi og geta endurspeglað tónlist sína og framþróun í ljósi þess.

Nánari upplýsingar varðandi Stage Europe Network má fá hjá Menningardeild Hins Hússins í síma 6955102.

TÓNLEIKAR

Ýmsir tónleikar eru haldnir yfir vetrartímann sem eru hugsaðir sem vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára til að koma tónlist sinni á framfæri jafnframt því að fá reynslu í því að sjá um tónleika. Tónleikarnir byggja á hugmyndafræðinni að; útvega aðstöðu og tækjabúnað til tónleikahalds og búa með því til vettvang í samstarfi við ungt tónlistarfólk þar sem að það getur öðlast reynslu í öllum hliðum þess að sjá um tónleika og því að koma tónlist sinni á framfæri.  Tónleikarnir fara fram á laugardageftirmiðdögum eða eftir nánara samkomulagi á öðrum dögum í Betri stofu Hins Hússins .

Nánari upplýsingar varðandi tónleika má fá hjá Menningardeild Hins Hússins í síma 6955102.

UNGLIST, LISTAHÁTIÐ UNGS FÓLKS:

Unglist, listahátíð ungs fólks, hefur verið árviss viðburður á haustdögum í Reykjavík frá árinu 1992.  Hátíðin stendur yfir í rúma viku í hvert sinn með fjölda þátttakenda og njótenda. Það er breytilegt frá ári til árs hvar viðburðirnir á hátíðinni fara fram.  

Dagskráin samanstendur af tónlist, hönnun, tísku, ljósmyndun, myndlist og leiklist svo eitthvað sé nefnt og endurspeglar það sem hefur verið í gangi í listsköpun hjá ungu fólki.

Frítt er inn á alla dagskrárliði hennar og hefur það verið hennar sérstaða.

Ungt fólk á aldrinum 16-25 ára getur komið með hugmynd og framkvæmt sinn viðburð á hátíðinni.

  • AIRWAVES Á KANTINUM

Undanfarin ár hafa tónleikarnir á Unglist verið einn af opinberu Hliðar sviðum/Off-Venue tónleikum Iceland Airwaves tónlista hátíðarinnar.  Mikilvægt er að sækja snemma um að spila á þeim því að færri komast að en vilja. Á tónleikunum spila bæði innlendir og erlendir tónlistamenn.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina má fá hjá  Menningardeild Hins Hússins í síma 6955102.

GALLERÍ HINS HÚSSINS:

Gallerí Hins Hússins er sýningaraðstaða fyrir alla, jafnt leika sem lærða á aldrinum 16 – 25 ára sem geta sýnt þar sér að kostnaðarlausu.  Hver sýning stendur yfir í einn mánuð og fær listamaðurinn leiðsögn í að setja upp sýninguna og aðstoð við að kynna hana.

Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar í síma: 6955102/ menning@hitthusid.is.