Kynntu þér þá starfsmöguleika sem þér standa til boða hjá Hinu Húsinu í sumar
Listhópar Hins Hússins:
Ungu fólki gefst kostur á að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi verkefnum og valdir hópar eða einstaklingar fá síðan tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum í átta vikur yfir sumartímann. Þessi verkefni eru afar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg og eru sýnileg víða í Reykjavíkurborg. Í gegn um árin hafa fjölmargir af okkar fremsta listafólki innan allra listgreina tekið sín fyrstu skref í Listhópum Hins Hússins.
Listhópar Hins Hússins eru fyrir ungt fólk á aldrinum 17 – 25 ára. Hópum eða einstaklingum býðst að starfa á tímabilinu 30.05. – 24.07.´23 í 8 vikur við framkvæmd eigin verkefna á sviði lista.
Umsókn:
Umsækjandi þarf að hlaða upp skjali með lýsingu á verkefninu (hámark 3. bls. að undanskildri ferilskrá og fylgigögnum) undir lið Umsókn – Lýsing á verkefni hér í forminu eða skila inn útprentaðri umsókn í Hitt Húsið, Rafstöðvarvegi 7 á milli kl. 9:00-12:30 virka daga þar sem fram koma eftirfarandi upplýsingar um verkefnið:
– Greinargóð lýsing á verkefninu, umfangi þess og markmiðum.
– Tíma- og verkáætlun verkefnisins.
– Fjárhagsáætlun.
– Upplýsingar/ferilskrá um alla aðstandendur verkefnisins og tilgreina einn aðila í hópnum sem tengilið.
Athugið:
- Að hópar skila inn einni sameiginlegri umsókn með verkefnalýsingu í Hitt Húsið eða skila inn rafrænt hér í umsóknaforminu en allir meðlimir verkefnisins þurfa að sækja um starfið með ferilskrá á reykjavik.is/sumarstorf.
- Vinsamlegast tilgreinið nafn verkefnisins í efnisreitinn (subject) ef umsóknin er send rafrænt.
- Að eingöngu er um laun til einstaklinga að ræða en ekki önnur fjármögnun á verkefninu.
Afgreiðsla umsókna.
Fimm manna nefnd fer yfir umsóknirnar og velur ákjósanleg verkefni.
Þættir sem nefndin hefur m.a. til hliðsjónar við verkefnaval:
– Markmið, verkáætlun og framkvæmd.
– Frumleiki hugmyndarinnar.
– Samfélagsleg vídd verkefnisins.
– Reynsla umsækjenda.
– Fjármögnun verkefnisins sé tryggð.
– Fjölbreytni í verkefnavali/vægi milli listgreina/málaflokka.
– Kynjahlutfall í hópi umsækjenda.
– Gæði umsóknarinnar í heild.
Hæfniskröfur:
- Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 17 til 25 ára og hafa lögheimili í Reykjavík.
- Hreint sakavottorð í samræmi við lög sem og reglur Reykjavíkurborgar.
- Mikilvægt er að þeir sem verða ráðnir geti unnið allt starfstímabilið.
Ath. Gerð er sú krafa að þeir sem fá úthlutað taki þátt í sameiginlegri dagskrá Listhópa Hins Hússins á þremur Föstudagsfiðrildum og Lokahátíð sem fer fram í miðborg Reykjavíkur og á 17. júní. Þeir sem eru ráðnir þurfa að geta unnið allt ráðningartímabilið.
Götuleikhús Hins Hússins:
- Götuleikhúsið sér um ýmsar leikrænar uppákomur á götum og torgum borgarinnar. Skapandi, skemmtilegt en jafnframt krefjandi starf fyrir opna og frjóa umsækjendur sem hafa áhuga á leiklist og þora að henda sér út í djúpu laugina.
Götuleikhús Hins Hússins er opið umsækjendum á aldrinum 17 – 25 ára og með lögheimili í Reykjavík.
Starfsmenn Götuleikhússins fá þjálfun í öllu því helsta sem tengist starfi götuleikhúss, þar sem að leikararnir koma að öllum undirbúningi sem viðkemur sýningunum.
Starfsmenn Götuleikhúss Hins Hússins starfa undir stjórn leikstjóra og búningahönnuðar að sýningum/uppákomum sem haldnar eru á götum og torgum borgarinnar. Götuleikhúsið er starfrækt í 8 vikur og er starfstímabilið frá 30.05. – 24.07, 2023.
Umsækjendur þurfa að hafa lögheimili í Reykjavík. Krafa er gerð um hreint sakavottorð í samræmi við lög og reglur Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að þeir sem verða ráðnir geti unnið allt starfstímabilið. Unnið er alla virka daga frá kl. 9-17.
Allir umsækjendur verða boðnir í leikprufu.
Nánari upplýsingar um starfið má fá með að senda póst á menning@hitthusid.is
Jafningjafræðari
Fræðslu- og forvarnarstarf fyrir ungt fólk.
Jafningjafræðsla Hins Hússins auglýsir eftir ábyrgu, metnaðarfullu og skemmtilegu ungu fólki í sumarstarf. Starfið er lifandi, krefjandi og skemmtilegt. Frábært tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum og hafa góð áhrif út í samfélagið. Hér má sjá kynningarmynd Jafningjafræðslunnar
Helstu verkefni og ábyrgð:
– Fræðslustarf meðal ungs fólks
– Skipulagning og framkvæmd Götuhátíð Jafningjafræðslunnar
– Vera jákvæð og góð fyrirmynd
Hæfniskröfur:
-Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 16-19 ára (fædd 2004, 2005 og 2006) og hafa lögheimili í Reykjavík.
-Mikilvægt er að þeir sem verða ráðnir geta unnið allt starfstímabilið (23. maí til 18. júlí).
Umsókn:
-Með umsókninni á að fylgja 2-3 mínútna myndband. Í þessu myndbandi áttu að segja frá þér sjálfum/ri/t, og afhverju þú sækir um starfið.
Ef þér vantar aðstoð eða hefur spurningar máttu endilega hafa samband á jafningi@reykjavik.is.
Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Reykjavíkur og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.
Starfshlutfall er 100% í 8 vikur.
Nánari upplýsingar um starfið veitir verkefnastjóri Jafningjafræðslunnar á jafningi@hitthusid.is og í síma 411-5500/695-5107.
Rafrænn persónuafsláttur:
Persónuafsláttur er hluti af tekjuskattskerfi einstaklinga. Með persónuafslætti er átt við sérstakan afslátt af tekjuskatti vegna launa einstaklinga. Upphæðin er föst krónutala og myndar svonefnd skattleysismörk. Árið 2023 er persónuafsláttur 59.665 kr. á mánuði. Sé persónuafsláttur ekki fullnýttur safnast hann upp og nýtist í síðari skattgreiðslur en fellur svo niður um hver áramót. Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti. Sjá nánar á: https://www.rsk.is/einstaklingar/stadgreidsla/personuafslattur
Ef þú átt uppsafnaðan persónuafslátt sem þú vilt nota í starfi þínu í sumar þarft þú að sækja upplýsingar um upphæðina á skattur.is og og koma til launagreiðanda fyrir tilsettan tíma. Launagreiðandi getur gefið þér upplýsingar um hvenær þú þarft að vera búin/n að skila inn upplýsingum um persónuafsláttinn þinn.
Hérna eru leiðbeiningar um hvernig þú nálgast upplýsingar um persónuafsláttinn þinn:
- þú skráir þig inn á skattur.is
- smellir á „Almennt“ og svo „Staðgreiðsluskrá RSK“
- í staðgreiðsluskránni smelliru á „yfirlit til launagreiðanda“
- og að lokum smelliru á „sækja PDF“
Ráðningarsamningur:
Persónubundinn samningur milli starfsmanns og vinnuveitanda um að starfsmaðurinn sé ráðinn til starfa og hvaða kjör hann hlýtur. Vinnuveitandinn sér um að útbúa ráðningarsamninginn og þurfa báðir aðilar að skrifa undir. Í ráðningarsamningi á að koma fram nafn, kennitala og lögheimili starfsmanns og vinnuveitanda, starfsheiti og stutt lýsing á starfinu, ráðningartími (tímabundinn eða ótímabundinn), starfshlutfall, stéttarfélag, eftir hvaða kjarasamningi er farið, launaflokkur og önnur atriði. Þau atriði sem ekki koma fram á ráðningarsamningi koma fram í kjarasamningi viðeigandi stéttarfélags. Sé starfsmaður ráðinn í lengri tíma en mánuð og að meðaltali lengur en 8 klst. á viku, skal eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að starf hefst, gera skriflegan ráðningarsamning eða staðfesta ráðningu skriflega.
Launaseðill:
Launaseðillinn berst í heimabanka um hver mánaðamót. Á honum standa persónuupplýsingar um launþega og laungreiðanda, mánaðarlaun fyrir skatt, staðgreiðsla (tekjuskattur og útsvar), persónuafsláttur, gjöld í stéttarfélag, lífeyrissjóði, séreignalífeyrissparnað (ef það á við) og aðra sjóði og orlof. Loks eru gefin útborguð laun, sú upphæð sem lögð er inn á bankareikninginn um hver mánaðamót, þ.e. launin eftir fyrrnefndan frádrátt.
Stéttarfélag:
Stéttarfélag eða verkalýðsfélag eru félagasamtök launþega úr tilteknum starfsstéttum stofnuð í þeim tilgangi að halda fram sameiginlegum hagsmunum sem tengjast starfi þeirra gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Stéttarfélög semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum og bjóða einnig upp á ýmis fríðindi fyrir félagsmenn sína. Í stéttarfélög er hægt að sækja um styrk fyrir nám, vegna veikinda og starfsendurhæfingu ásamt fleiri styrkjum. Einnig bjóða stéttarfélög upp á ýmis námskeið og útleigu orlofshúsa. Stéttarfélög eru fjölmörg á Íslandi og skiptast eftir starfsgreinum og landssvæðum. Stéttarfélög veita ráðgjöf fyrir félagsmenn sína um réttindi þeirra og fleira og aðstoða ef ágreiningur kemur upp en í stéttarfélögum er aðgangur að lögmönnum. Þegar skrifað er undir ráðningarsamning á að standa þar hvaða stéttarfélagi tiltekið starf tilheyrir. Allir launþegar borga í stéttarfélag og atvinnurekendur borga á móti þeim ásamt því að borga í ýmsa sjóði stéttarfélagsins sem launþegar geta sótt um styrki í. Starfsmenn eru í raun að greiða fyrir að fá að vinna eftir kjarasamningi félagsins sem kveður á um lágmarkskjör.